143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna.

[11:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þetta er efnislega sama fyrirspurn og borin var upp í byrjun fyrirspurnatímans, en það er ekkert að því að fara yfir þetta aftur. Ég held að hv. þingmaður gefi sér ansi mikið í umræðunni þegar hún lætur að því liggja að skýringar hæstv. menntamálaráðherra í fréttum í gær bendi til þess að hann hafi minni trú á þjóðinni en hann áður hafði. Það hefur ekkert með það að gera. Mín skoðun og okkar skoðun, og það hefur formaður Sjálfstæðisflokksins ítrekað sagt í þessari umræðu, er sú og hefur verið það allan tímann að eigi að halda áfram þessari vegferð með einhverjum hætti og sé það vilji þjóðarinnar, verði það gert í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu. Um slíkar tillögur var margítrekað rætt á síðasta þingi. Slíka tillögu fluttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Illu heilli var hún ekki samþykkt þannig að sú leið var ekki farin.

Ég hef persónulega mikla trú á þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að við eigum núna að leggja alla vinnu í það að reyna að skýra umgjörðina í kringum þjóðaratkvæðagreiðslu, hleypa almenningi í ríkara mæli að þeim verkefnum en gert hefur verið. Ég held að við ættum að einhenda okkur í að vera samstillt í því að fara í þá vinnu, í tengslum við endurskoðun á stjórnarskránni, að gera umgjörðina í kringum þjóðaratkvæðagreiðslu skýrari en hún hefur verið og hleypa því meira í hendurnar á almenningi sjálfum heldur en það sé einungis gert eins og gert hefur verið með milligöngu forsetans.

Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að endurtaka það sem ég sagði áðan. Auðvitað er þingsályktunartillagan sem um ræðir og orðalagið í henni svo sem ekki komið formlega hér fyrir, en henni hefur verið dreift og ég hvet þingheim til þess að lesa hana vel.

En þingmaðurinn spurði: Hefur eitthvað breyst? Hlutirnir hafa auðvitað breyst í íslenskum stjórnmálum. Það er ný ríkisstjórn tekin við. Það er ríkisstjórn sem er á móti inngöngu í Evrópusambandið og telur hagsmunum landsins ekki best borgið þar. Hér var skilað skýrslu, sem mér finnst menn dálítið gleyma að ræða, um stöðu viðræðnanna og hvar við værum stödd efnislega (Forseti hringir.) í verkefninu. Það hefur fært mér heim sanninn um það að verkið var skemur (Forseti hringir.) komið en ég hafði talið og við erum á meiri villigötum (Forseti hringir.) en ég hafði talið.