143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna.

[11:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður var greinilega ekki alveg sáttur við svör mín. Ástæðan fyrir því að ég nefndi þetta var sú að þingmaðurinn spurði í upphafi ræðu sinnar hvort það væru hlutir sem ég teldi að hefðu breyst á undanförnum mánuðum. Ég sagði að skipt hefði verið um ríkisstjórn, eins og ég held að flestum hljóti að vera kunnugt, en ég upplýsti einnig um það að ég teldi að þessi skýrsla — og þar getum við bara verið ósammála — færi okkur heim sanninn um það að við höfum verið á meiri villigötum í þessu máli en nokkurt okkar vissi.

Það kemur fram í skýrslunni að við munum ekki fá samninga eða undanþágur og auk þess kemur fram að sumt af þeim hlutum sem hefði þurft að ræða mjög ítarlega, eins og sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál o.fl., hafa ekki verið til umræðu. Það hefur líka komið í ljós á undanförnum mánuðum, í samtölum forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar við forsvarsmenn Evrópusambandsins, að við getum ekki haldið áfram verkefninu eins og lagt var upp með það þar sem ekki liggur fyrir hvort ríkisstjórn sem situr við völd í landinu vill ganga í Evrópusambandið eða ekki. Það er ekki eitthvað sem Evrópusambandið telur vera fýsilegt.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra var nefndur hér, að það er ekkert sem fram kom í máli hans í gær, ekki nokkur (Forseti hringir.) skapaður hlutur, eða í máli (Forseti hringir.) annarra hæstv. ráðherra, sem gefur (Forseti hringir.) til kynna að (Forseti hringir.) ráðherrar hafi minni trú á (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu en þeir höfðu.