143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

stefnumótun í málefnum framhaldsskólans.

[11:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Á dögunum birti Ríkisendurskoðun skýrslu um fjármál framhaldsskólanna. Þar kom fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið þyrfti að bregðast tafarlaust við bágri rekstrarstöðu framhaldsskólanna. Hæstv. ráðherra svaraði spurningum fréttamanna þar að lútandi þannig að þetta sýndi að nauðsynlegt væri að gera kerfisbreytingar og að góður samhljómur væri með niðurstöðu Ríkisendurskoðunar og þeirri áætlun sem hæstv. ráðherra hefði lagt upp með.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að ég hef haft áhyggjur af orðræðu hans og umræðu um framhaldsskólann, mér hefur fundist hann nálgast viðfangsefnið fyrst og fremst þannig að framhaldsskólinn væri rekstrareining. Ég sakna þess að heyra afstöðu ráðherrans til þess hver eigi að vera aðkoma skólanna sjálfra að þeirri stefnumótun sem hann hefur boðað. Hver á að vera aðkoma þeirra sem skólastigið mynda, þ.e. framhaldsskólakennara, nemenda og foreldra, þeirra sem skólasamfélagið skapa? Hvers konar aðkoma á að vera þar tryggð þar sem um er að ræða í raun og veru grundvöllinn fyrir allri farsælli þróun skólastigsins í framtíðinni?

Ég hef áhyggjur af því að hæstv. ráðherra hefur fyrst og fremst talað um skólastigið sem útgjaldalið sem þurfi að stemma stigu við. Ef koma eigi til móts við augljósar og sanngjarnar kröfur kennara um leiðréttingu á kjörum þeirra sé sóknarfærið í kerfisbreytingum framhaldsskólastigsins, sem sé stytting skólastigsins. Það þýðir ekkert annað en að það fækkar væntanlega í stétt kennara og dregur úr innihaldi menntunarinnar.

Ráðherrann hefur aldrei fjallað um faglega nálgun hvað þetta varðar. Ég hef áhyggjur af þessu og vil biðja hæstv. ráðherra að bregðast við þeim áhyggjum og allra helst að (Forseti hringir.) koma þeim hér út úr heiminum.