143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[11:49]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Vegna þess sem fram kom í máli hæstv. menntamálaráðherra áðan vil ég segja að hæstv. ráðherra man örugglega þennan atburð betur en ég. Það sem ég átti við var að út frá afstöðu í þingsal var útilokað fyrir hv. þingmann þá, hæstv. ráðherra í dag, að sjá hvað stóð á þessum skiltum. En ég verð bara leiðréttur hvað varðar að það var auðvitað hv. þingmaður sem gerði athugasemdir við forseta að hann skyldi hafa verið truflaður í ræðustól með þessum hætti. Honum var misboðið. Það var meginefni máls míns hér áðan. Það var gripið til mjög afgerandi aðgerða af hálfu forseta.

Ég vil að það sé á hreinu í þingsal að menn njóti ákveðinnar helgi meðan þeir standa í ræðustól og ekki sé hægt að ganga upp að þeim og rétta þeim pappíra eða trufla þá á nokkurn hátt á meðan þeir fara með sína ræðu. Það er lykilatriði.