143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[12:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið viðkvæði mitt alla þessa viku að hér sé á ferðinni fordæmalaus gjörningur í íslenskri stjórnmálasögu þar sem stjórnmálaöfl gera tilraun til þess að taka út af borðinu eitt stærsta deilumál samtímans og eyðileggja það mál fyrir framtíðarkynslóðum þessa lands. Að menn komi hér upp undir þessum lið, fundarstjórn forseta, til þess að ræða bæði það hvernig þetta mál ber að og hvernig tillaga hæstv. utanríkisráðherra um þingsályktun kemur inn í hliðina á þeirri umræðu sem hafin var með skýrslu utanríkisráðherra og Hagfræðistofnunar, þykir mér bara ekki tiltökumál. Mér finnst engin ástæða til þess af stjórnarmeirihlutanum að vera að kveinka sér undan því að menn ræði hér bæði efni og form þessarar umræðu. Þeir hafa gefið allt tilefni til þess og það er bara full ástæða til þess að hún fari fram með þessum hætti. Menn eru búnir að bjóða ákveðna lausn í þessu máli sem ekki hefur verið hlustað á.