143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði hlakkað mjög til að heyra ræðu hv. þingmanns til þess að heyra hvaða afstöðu hann hefur gagnvart skýrslunni sem er til umræðu, en stystur (Gripið fram í.)tími ræðunnar fór í þá umræðu og meiri í allt annað mál sem beðið er eftir að komist hér á dagskrá. Ég vil hvetja hv. þingmenn til þess að beita sér fyrir því að það komist sem fyrst á dagskrá þannig að við getum rætt það mál efnislega.

Hv. þingmaður minntist á að við ræddum ekkert um undanþágur og sérlausnir. Ég eyddi ræðu minni í þessu máli í að ræða um undanþágur og sérlausnir, sem hv. þingmaður hefur þá misst af.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hversu margar undanþágur og sérlausnir hafði fyrrverandi ríkisstjórn, sú ríkisstjórn sem hv. þingmaður studdi, þegar náð fram í þeim samningaviðræðum sem stóðu yfir í tæp fjögur ár við Evrópusambandið? Hversu mörgum atriðum varðandi undanþágur og sérlausnir hafði fyrrverandi ríkisstjórn náð fram á þeim tæpum fjórum árum sem hún hafði til þess að semja við Evrópusambandið? (Forseti hringir.)