143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:22]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað lofsvert að hv. þingmaður hafi komist að niðurstöðu í þessu máli. Hún liggur fyrir og er virðingarverð að mörgu leyti. Ég skil sjónarmið hv. þingmanns, en ég skil ekki hvers vegna hún vill ekki leyfa þjóðinni að komast að niðurstöðu í málinu, hvers vegna hún vill ekki leyfa þjóðinni fyrir sitt leyti að fara yfir sérlausnir, undanþágur, fara yfir samninginn þegar hann liggur fyrir og taka ákvörðun um framhaldið. Það er fullkomlega óskiljanlegt. Það er frábært að hv. þingmaður sé komin að niðurstöðu fyrir sitt leyti og fyrir sinn hatt, en hvað gerir hana hæfari til þess að taka ákvörðun fyrir alla þjóðina en hvern þann mann sem kemur hér og heimtar þann rétt sinn, hæfari en stórfyrirtæki á borð við Marel, Össur, CCP, sem krefjast þess að viðræðunum verði lokið, hæfari en ASÍ, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins? Það er að vísu komin ályktun frá sjálfstæðisfélögunum í Árnessýslu, sem ég (Forseti hringir.) veit að hv. þingmaður fagnar mjög, og yfirlýsing frá Hjörleifi Guttormssyni. En (Gripið fram í.) því ekki að leyfa þjóðinni (Forseti hringir.) að taka ákvörðun?