143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna.

Fulltrúalýðræðið byggir á trausti. Það byggir á því að okkur sem bjóðum okkur fram á grundvelli ákveðinnar stefnu sé treyst til að fylgja þeirri stefnu. Nú hefur það gerst með mjög opinskáum hætti að sýnd hafa verið í röð viðtöl við forkólfa Sjálfstæðisflokksins; formanninn, varaformanninn og tvo fyrrverandi þingflokksformenn. Allt þetta fólk er nú ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn. Þeir ganga nú í berhögg við þá stefnu sem þeir boðuðu kjósendum sínum. Þeir hafa tekið fulltrúalýðræðið og leikið sér að því til að — ég leyfi mér að segja: kaupa sér stuðning til valda á fölskum forsendum.

Af því þingmaðurinn fór svo ágætlega yfir það að það samhengi sem þessi skýrsla hefur verið rædd í var eyðilagt, vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða áhrif hefur það á stöðu Alþingis að fulltrúalýðræðið sé að engu (Forseti hringir.) gert, bæði í kosningaloforðum gagnvart kjósendum sem og öðrum þingmönnum?