143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú hafa orðið þær vendingar í ákvarðanatöku um framvindu þessa þingfundar að formenn flokkanna eru komnir að borðinu, eins og það heitir. Það hefur verið upplýst, bæði af einstökum þingmönnum og ekki síst af forseta sjálfum. Við höfum vonda reynslu af því þegar þeir hinir sömu eru ekki við umræðuna, þ.e. hæstv. forsætisráðherra hið minnsta og varaformaður Sjálfstæðisflokksins í fjarveru flokksins, og hæstv. utanríkismálaráðherra er nú ráðherrann sem málið heyrir undir. Við höfum vonda reynslu af því í umræðu um Hagstofuna þegar það voru ítarlegar efnislegar umræður um málin, svo kom hér forsætisráðherra undir atkvæðagreiðslunni eins og álfur út úr hól og hafði ekki fylgst neitt með umræðunni og var á byrjunarreit með alla hluti sem þar voru til umræðu. Ég vonast til þess að í svo stóru máli sem hér er undir eigum við ekki von á slíkum hallærisuppákomum í þingsal, að ráðherrarnir komi af fjöllum þegar kemur að því að tryggja einhverja lendingu í málunum. Ég óska því mjög eindregið eftir þeim hér inn í þingsal.