143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það minnsta sem hægt er að ætlast til af ráðherrum er að þeir sitji hér, og þá sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra sem hleypti náttúrlega umræðu um skýrsluna í uppnám. Mér skilst að skýrslan hafi kostað ríkið 25 milljónir og svo viðbót — (Gripið fram í: Vask og ferðakostnað.) vask og ferðakostnað er sagt hér. Skýrslan kostaði heilmikla peninga og hún er eiginlega runnin út í sandinn með þeirri gerræðislegu tillögu sem hæstv. ráðherra lagði fram. Sem betur fer held ég að það eigi sér enga forsögu hér að ætla að taka mál úr umræðunni með einni lítilli þingsályktunartillögu.

Ég held að gera verði þá kröfu til hæstv. utanríkisráðherra að hann sitji hér og síðan þarf að gera þá kröfu til hans, virðulegi forseti, að hann svari þingmönnum og blandi sér í umræðuna og þar fram eftir götunum. Ég veit að þingforseti getur ekki togað manninn upp í ræðustólinn, (Forseti hringir.) en hann gæti kannski borið hann hingað inn í sal.