143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að vita hvort ég heyrði rétt. Er verið að fara fram á að öll ríkisstjórnin, eða stærsti hluti hennar, sitji hér út af umræðu um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra? Er mönnum fullkomlega alvara?

Ég var í stjórnarandstöðu síðast, ég veit að það má ekki minnast á það, og maður mátti standa hér og … (Gripið fram í.)Maður má nú ekki … (Gripið fram í.)Ég hef nógan tíma, virðulegi forseti, þannig að við bíðum bara þangað til þær eru búnar að ljúka sér af í frammíköllum, hv. þingmenn Samfylkingarinnar.

Þá var það þannig í þau fáu skipti sem beðið var um hæstv. ráðherra að það komu skilaboð um að þeim skilaboðum hefði verið komið áleiðis til viðkomandi hæstv. ráðherra. Núna er krafa Samfylkingarinnar að allur bekkurinn sé setinn, hvorki meira né minna. Ég hlýt að spyrja: Í hvaða málum þurfa allir ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar ekki að sitja undir umræðum? Ég held að miklu betra sé að (Forseti hringir.) nálgast það þannig að segja einfaldlega frá því í hvaða fáu málum ráðherrar þurfa ekki allir að vera viðstaddir, ef þetta á að vera meginreglan.