143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[12:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er kannski óþarfi að öll hæstv. ríkisstjórn sé hérna á svæðinu. (GÞÞ: Nú, bara afsláttur!) — Já, já. Það mundi nægja svona af og til að hafa einn. Nú væri fínt að hafa einn, kannski hæstv. utanríkisráðherra sem lagði fram þessa blessuðu skýrslu sem við erum að fjalla um.

Til að undirstrika mikilvægið ætla ég að benda aftur á að enginn hæstv. ráðherra er á svæðinu. Undirskriftirnar eru komnar í 36.562, sem er 15,1% af kosningarbærum mönnum á Íslandi, vel yfir 10% af gjörvallri þjóðinni, þar á meðal nýfæddum og öðrum sem ekki geta kosið. Mér finnst að hæstv. ráðherrar ættu að fara að taka deiluna sem á sér stað aðeins alvarlegar og sitja alla vega í þingsal ef þeir hafa tök á.