143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki flókið mál, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Það er lögbundin starfsskylda okkar alþingismanna allra að sækja þingfundi. Ef eftir því er óskað að við séum viðstödd umræðu þá er það auðvitað nokkuð sem við eigum að leitast við að verða við ef unnt er. Sérstaklega á það við um þau úr okkar hópi sem eru ráðherrar í ríkisstjórninni vegna þess að það er einfaldlega hlutverk þingsins að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Það er mikilvægt í hverju lýðræðissamfélagi.

Það má vel vera að hv. þingmaður geti vísað til ýmissa slæmra dæma í fortíðinni, en ég tek undir með þeim sem hér hafa sagt í dag að ef menn ætla jafnan böl að bæta með því að benda á annað verra verða aldrei neinar framfarir á Alþingi.