143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[12:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki ónýtt að hafa einhvern til að ala sig upp og segja hvernig á að haga sér í þingsal, hafa hér Guðlaug Þór Þórðarson uppfræðandi okkur um hvernig eigi að gera það. Mér finnst hins vegar kostulegt í máli hans að honum virðist finnast það ákaflega fyndið að við þingmenn eigum að vera í þingsal, ákaflega fyndið að við eigum að fylgjast með og vita hvað hér er um að ræða, og jafnvel enn þá fyndnara og fáránlegra að ráðherrar sem bera ábyrgð á einu stærsta máli sem ég held að hafi komið til þings, og hleypa hér öllu í uppnám, (UBK: Icesave.) eigi að vera hér. Hér er utanríkisráðherra ekki. Ég hef svo sem ekki beðið um aðra ráðherra, en utanríkisráðherra er ekki hér. Ég ætla enn að biðja um að umræðu sé ekki fram haldið nema utanríkisráðherra sitji hér, virðulegi forseti.