143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

tilhögun þingfundar.

[15:03]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Þingfundi hefur verið frestað ítrekað eins og hv. þingmenn hafa orðið varir við. Það var vegna þess að þess var freistað í þessu hléi og raunar áður að finna niðurstöðu sem gæti orðið til þess að skapa sátt um það fyrirkomulag umræðnanna sem nú fara fram og eiga eftir að fara fram.

Niðurstaða í þessum efnum er fengin. Hún er sú að nú mun halda áfram umræðan um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið og sú umræða tæmd. Að því búnu hefst umræða um tillögu hæstv. utanríkisráðherra um að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Sú umræða hefst með öðrum orðum í framhaldi af því að umræðu um skýrsluna um aðildarviðræður við Evrópusambandið verður frestað og skýrslunni vísað til nefndar. Að því búnu hefst þá umræðan um tillöguna sjálfa.

Gert er ráð fyrir að hæstv. utanríkisráðherra fylgi henni úr hlaði og fulltrúar allra þingflokka eigi þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þeirri umræðu á grundvelli reglna í þingsköpum um ræðutíma. Þar er sömuleiðis gert ráð fyrir að sjálfsögðu möguleikum á andsvari og öðru.

Jafnframt þessu er gert ráð fyrir að þær tvær tillögur sem fyrir liggja, annars vegar frá hv. þingmönnum Vinstri grænna og hins vegar frá þingflokki Pírata ásamt fleiri þingmönnum, verði afgreiddar eftir atvikum umræðulaust til nefndar jafnframt tillögu hæstv. ráðherra.

Þá er gert ráð fyrir að leitað verði hófanna á næstu dögum í nefndaviku til að vita hvort hægt sé að reyna að greiða fyrir umræðu málsins eftir því sem kostur er í framhaldinu.

Forseti vonar að hann hafi gert fyllilega grein fyrir þessu samkomulagi eins og það blasti við og forseti kynnti það fyrir hv. þingmönnum, formönnum þingflokka og formönnum flokka. Ef athugasemdir eru við það eða ábendingar tekur forseti fúslega við þeim en að öðru leyti vill forseti segja að ef einhverjar breytingar verða, til að mynda í nefndaviku, verða þær ræddar við formenn þingflokka eins og vani er á.