143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[15:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að bíða nokkuð lengi eftir að fá að ræða þetta mál efnislega en af ýmsum ástæðum hefur tekið örlítinn tíma að komast hér að. Það er ánægjulegt að við ætlum að fara að ræða málin efnislega. Ég sé að áhugi hv. þingmanna á því er einlægur og einskær. Maður sér varla hreyfingu á nokkrum einasta hv. þingmanni þó að við séum komin á annan stað í vinnunni.

Íslendingar eru ekkert öðruvísi en annað fólk hvað varðar málefni ríkjabandalagsins Evrópusambandsins sem er tollabandalag eins og við öll vitum. Það klýfur þjóðina. Við höfum séð það á undanförnum dögum að það mál sem ekki hefur verið mikið í umræðunni hefur valdið miklum deilum og klofningi, ekki bara á milli flokka, kannski síst milli flokka, heldur innan flokka og jafnvel innan fjölskyldna og milli vina.

Ég hef verið þátttakandi í ýmiss konar samstarfi á alþjóðavettvangi og þá sérstaklega vettvangi Evrópu í tengslum við störf fyrir minn stjórnmálaflokk í áratugi og það er nákvæmlega það sama upp á teningnum alls staðar.

Eina ástæðan fyrir því að Norðmenn frændur vorir veigra sér mjög við að taka umræðu um Evrópumálin er sú að þær tvær þjóðaratkvæðagreiðslur sem þar hafa verið haldnar skildu eftir sig djúp spor meðal þjóðarinnar. Þess vegna finnur maður það, virðulegur forseti, þegar maður talar við kollega sína í Noregi að þeir vilja helst að þau mál séu ekki mjög hátt í umræðunni, m.a. út af þeirri ástæðu, þrátt fyrir að viðkomandi einstaklingar hafi sterkar skoðanir á málinu hvorum megin sem þeir standa hvað það varðar.

Við sjáum gríðarlega miklar deilur í ýmsum löndum. Menn hafa t.d. nefnt Bretland. Þar sé ég þann flokk sem við erum í samskiptum við, breska Íhaldsflokkinn, vera kominn í þá stöðu að í rauninni er líf hans í næstu þingkosningum undir því komið að ná samkomulagi við eins máls flokk sem hefur tögl og hagldir í breskum stjórnmálum núna, en sá flokkur byggir fyrst og fremst á andstöðu við Evrópusambandið. Meira að segja breski Verkamannaflokkurinn hefur ákveðið að styðja að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Bretland eigi að vera áfram í Evrópusambandinu. Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar.

Meira að segja í Þýskalandi, þar sem var lengst af fullkomið tabú að minnast á nokkra gagnrýni á Evrópusambandið, hafa slík mál komist á dagskrá, eftir því sem ég best veit í fyrsta skipti í sögu Þýskalands og Vestur-Þýskalands.

Það sem er hins vegar sérstakt við umræðuna hér á landi er að hér eru menn almennt ekki opinberir aðildarsinnar. Það sem er sérstakt við það er að menn hafa lagt málin upp með þeim hætti að hægt verði að kíkja í pakkann, það sé skynsamlegt að sækja um til að sjá hvað sé í boði. Ég fullyrði að slík umræða hefur ekki farið fram í öðrum löndum og ég fullyrði að aðrar þjóðir hafa ekki sótt um aðild til að kanna hvað sé í boði. Hver og einn getur auðvitað kynnt sér það.

Ég hef átt fjölmörg samtöl við erlenda stjórnmálamenn um þetta efni og þeir hafa hreint og beint sagt við mig að þeir skilji ekki hvernig það megi vera og hafa jafnvel spurt hvort það sé virkilega sanngjarnt gagnvart Evrópusambandinu að við göngum fram með þessum hætti.

Það hlýtur líka að vera svolítið sérkennilegt þegar menn leggja upp með það, hvað sem mönnum finnst um að ganga í Evrópusambandið eða ekki, að senda einhverja til samningaviðræðna við Evrópusambandið sem vilja ekki ganga í sambandið vegna þess að þeir hafa kynnt sér málið og mótað sér skoðun á því. Þeir eiga að ganga til samninga. Væntanlega ætlumst við þá til þess að þeir klári samningana og skrifi undir þá. Það væri mjög sérstakt að sjá íslenskan forsætisráðherra, hver sem hann væri, skrifa undir aðildarsamning við Evrópusambandið og koma síðan heim og það fyrsta sem hann segði við íslenska þjóð eftir að hann væri búinn að skála við viðsemjendurna í Brussel eða hvar sem það væri gert væri: „Alls ekki samþykkja þennan samning sem ég var að skrifa undir.“ Það væri mjög sérkennileg staða.

Síðan eru önnur rök sem ég heyrði frá varaformanni Samfylkingarinnar. Þau sneru að vísu að þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við ættum að greiða atkvæði um hvort sækja ætti um aðild, sem ég hef haft efasemdir um. Hv. þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar sagði orðrétt í útvarpsviðtali nýlega þegar hún var spurð af hverju þjóðin var ekki spurð formlega á síðasta kjörtímabili, með leyfi forseta:

„Það var vegna þess að menn töldu enga þörf á því á þeim tíma, það hefði verið algjörlega nýtt eða ég veit ekki um neina þjóð sem hefur lagt af stað með slíkt þjóðaratkvæði að baki vegna þess að — í hvaða samningsstöðu ertu þá ? Þá ertu í þeirri samningsstöðu að þú ert með gríðarlegan þjóðarvilja að baki umsókn og þá í erfiðari samningsstöðu gagnvart Evrópusambandinu.“

Eftir því sem ég best veit eru þetta skýrustu rökin sem hafa komið fram fyrir því af hverju ekki var farin þessi leið á síðasta kjörtímabili.

Því hefur verið haldið að þjóðinni, bæði af fjölmiðlum sem eru vilhallir inngöngu Íslands í Evrópusambandið og af fræðimönnum, a.m.k. þeim álitsgjöfum sem eru helstu góðkunningjar fjölmiðla og eiga það sameiginlegt að vera miklir aðildarsinnar, að skynsamlegt sé að kanna hvað sé í boði því að lausnirnar séu svo margvíslegar. Ég hef reynt og ætla að vona að ég geti nýtt tíma minn hér í að taka fyrir þau málefnalegu rök sem ég hef heyrt um undanþágur, sérlausnir og aðra slíka hluti því að ég hef reynt að rekja þau, finna þeim stað þegar ég sé þau á blaði og skoða hvað sé á bak við þau.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, segir að í skýrslunni sé skýrt að sérlausn sé fær. Hann vísar í Stefán Má Stefánsson prófessor og segir í grein í Fréttablaðinu að hann segi skýrt að sérlausn sé fær leið sem samrýmist reglum ESB.

Á bls. 132–133 í viðauka III er fjallað um þessar sérreglur. Þar kemur skýrt fram að heimildin gildi til 31. desember 2022. Þar segir líka, með leyfi forseta, að vísu um sérreglu um 12 mílna lögsögu:

„Varast ber að skilja framangreint á þann veg að sérreglur um 12 sjómílna lögsögu undanskilji hana frá reglum um hámarksafla og kvótaúthlutun til aðildarríkjanna. Svo er ekki. Sérreglurnar fela ekki í sér ótakmarkað vald einstakra aðildarríkja til að mæla fyrir um veiðar á þessum svæðum.“

Einn ágætisaðildarsinni skrifaði grein í Pressuna nýverið, Jón Sigurðsson. Mér fannst það vera málefnaleg og góð grein. Hann nefndi nokkur dæmi um undanþágur. Fyrst nefnir hann, með leyfi forseta:

„349. gr. Lissabonsáttmálans kveður á um algera sérstöðu í landbúnaði og fiskveiðum á Asoreyjum, Kanaríeyjum, Madeira og fleiri eyjum innan ESB. Megintakmörkunin á algeru sjálfræði og sérstöðu er að eyjarskeggjar mega þá ekki nota þessa aðstöðu og styrki ESB til að flytja afurðir inn á markað ESB á niðursettu verði.“

Virðulegi forseti. Hér er vitnað til ákvæðis sem á við Gvadelúpeyjar, Frönsku Gvæjana, Martíník, Réunion, St. Bartolómeusareyjar, St. Martinseyjar, Asoreyjar, Madeira og Kanaríeyjar sem standa höllum fæti sökum þess að um er að ræða afskekkt eyjasamfélög sem einkennast af smæð, erfiðum staðháttum og veðurfari og reiða sig á fáar framleiðsluvörur. Ekki er um að ræða varanlegar undanþágur fyrir þessar eyjar sem eiga lítið annað sameiginlegt með Íslandi en að vera eyjar. Um er að ræða ákvæði sem segir, með leyfi forseta:

„… skal ráðið samþykkja, að tillögu framkvæmdastjórnarinnar og að höfðu samráði við Evrópuþingið, sértækar ráðstafanir sem miða einkum að því að ákveða með hvaða skilyrðum ákvæðum sáttmálanna, m.a. sameiginlegum stefnum, skuli beitt gagnvart þessum svæðum. […] Ráðstafanir samkvæmt fyrstu málsgrein varða einkum svið á borð við stefnu í tollamálum og viðskiptum, stefnu í skattamálum, frísvæði, landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu, skilyrði fyrir framboði á hráefnum og nauðsynlegum neysluvörum, ríkisaðstoð og skilyrði fyrir aðgangi að uppbyggingarsjóðum og þverlægum áætlunum sambandsins.“

Hér er einfaldlega um að ræða aðgerð til handa fátækum svæðum en ekki neinar undanþágur fyrir fiskveiðar og landbúnað. Það er tekið sérstaklega fram, með leyfi forseta, „án þess þó að grafa undan áreiðanleika og festu í réttarkerfi sambandsins, þar með talið innri markaðnum og sameiginlegu stefnunum“.

Í lokagrein Lissabonsáttmálans er fjallað um danska ríkisborgara og kaup á íbúðarhúsnæði. Það ákvæði er þekkt og kom í stækkunarlotu þar sem Danir höfðu neitunarvald en umsóknarríki er að sjálfsögðu ekki í þeirri stöðu.

Einnig kemur fram í grein Jóns Sigurðssonar að samkvæmt reglum ESB um stöðug hlutföll og nálægðarreglu „verða Íslandsmið, ef til aðildar Íslands kæmi, sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði með sérstöku regluverki og engir aðrir en Íslendingar hafa þar veiðirétt. Þá yrði sérstakt svæðisráð skipað hér (RAC)“.

Það er skemmst frá því að segja, þegar maður fer að skoða þetta, að nálægðarreglan á ekki við sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna, samanber bls. 129 í viðauka III. Stöðug hlutföll þýða að við mundum væntanlega fá að veiða svipað hlutfall og við höfum veitt af einstökum tegundum í lögsögu okkar, þ.e. íslensk fyrirtæki. Einnig mættu erlend fyrirtæki veiða á Íslandsmiðum ef þau væru með dótturfyrirtæki með höfuðstöðvar hér á landi. Þrátt fyrir margvíslegar tilraunir aðildarþjóða til að koma í veg fyrir veiðar erlendra fyrirtækja í eigin lögsögu hefur ekki tekist að koma í veg fyrir það. Það er svokallað kvótahopp sem reynt hefur verið að stöðva frá því að Spánverjar hófu að veiða við Stóra-Bretland. Er farið ítarlega í það í viðauka III í þessari skýrslu, sem er að stærstum hluta eftir Stefán Má Stefánsson.

Vitnað er í gjaldmiðlamál. Það er skemmst frá því að segja að þegar myntsamstarfið hófst höfðu aðildarríki sveigjanleika og þurftu ekki að vera með í því en sá möguleiki er ekki til staðar lengur.

Síðan er talað um landbúnaðarsamning sem Finnar voru með, þ.e. sem er ákveðinn kafli í landbúnaðarstefnu sambandsins um landbúnað fyrir norðan 62. gráðu. Það er nokkuð sem er í sameiginlegu stefnunni og er breytanlegt eins og, eftir því sem ég best veit, allt sem hefur verið kallað „sérstakar undanþágur“ í samningnum.

Virðulegur forseti. Ég næ ekki að fara í gegnum alla þessa þætti en ætla að reyna eins og ég get. Ég hef reynt að koma því að, m.a. í greinum, og vekja athygli á því hvað fólst til dæmis í samningi Noregs. Ég tel afskaplega mikilvægt að við förum yfir þetta málefnalega og byggjum á staðreyndum og förum yfir þessa þætti. Það hafa aðrar þjóðir gert. Við komumst aldrei hjá því að gera það. Við verðum að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru. Ég átta mig alveg á því að það er vandamál í sjálfu sér ef þjóðin er ekki sátt við það sem við erum að gera hér. Það er verkefni til að takast á við. Það er vont ef þjóðin er ekki sátt við það hvernig við vinnum hlutina, hvort sem það er í sambandi við Evrópusambandið eða annað. Það er alveg ljóst að við verðum að taka þessa umræðu. Þetta snýst ekki um að troða þessu ofan í kokið á einum eða neinum.

Ég vil ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið vegna þess að þar eru ekki okkar hagsmunir. Við Íslendingar eigum gríðarlega möguleika. Við höfum nýtt þá svolítið, t.d. síðasti hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson. Hans stærsta afrek án nokkurs vafa var að gera fríverslunarsamning við Kína sem skapar gríðarleg tækifæri fyrir okkur. Á vegum EFTA höfum við gert mikið af fríverslunarsamningum. Ég þekki það vel sem formaður þingmannanefndar EFTA. Þeir sem við hittum segja að margar þjóðir séu hræddar við stórveldi, Kína, Bandaríkin, Evrópusambandið, en litla EFTA með Sviss, Noreg og Ísland — það er enginn hræddur við okkur. Það þýðir gríðarleg tækifæri fyrir okkur. Ef við mundum nýta þau tækifæri að fullu sæjum við miklu fleiri fríverslunarsvæði og miklu meiri tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Ef við förum í tollabandalag, sama hvaða, getum við ekki gert þetta lengur.

Ég vonast til þess, virðulegi forseti, að okkur auðnist leið til að útskýra fyrir fólki hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu. Eðli málsins samkvæmt er það þjóðin sem tekur afstöðu til þess með einum eða öðrum hætti, t.d. með því að kjósa flokka. Ef við förum einhvern tíma í aðildarviðræður verður það auðvitað gert til að ganga þangað inn. Ef menn hugsa um virðingu Alþingis, virðingu þjóðarinnar verður að bera það mikla virðingu fyrir viðsemjendum okkar að við blekkjum þá ekki. Ef við ætlum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fara í viðræður hljótum við að gera það af fullri einurð. Þá mun þjóðin auðvitað taka endanlega afstöðu til þess eða ég leyfi mér rétt að vona það.

Virðulegi forseti. Sama hvað okkur finnst þá viljum við held ég öll að þjóðin sé nokkuð sátt. Við viljum ekki sjá klofning að óþörfu. Ég vonast til þess að á næstu vikum og mánuðum munum við taka upplýsta umræðu um hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu því að það er kjarni málsins.