143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ósammála því síðasta sem hv. þingmaður sagði því að það er ekki þannig að einhverjir reyndustu alþjóðlegu samningamenn veraldarinnar, samningamenn Evrópusambandsins, fari sjálfkrafa í viðræður við önnur ríki. Þeir leggja auðvitað á það mat hvort líkur séu til þess að það beri árangur. Ef af því hefur áður verið vond reynsla minnka náttúrlega líkurnar á því að þeir séu tilbúnir til slíkra viðræðna. En látum það liggja á milli hluta.

Við í Samfylkingunni höfum sagt að við getum gefið eftir kröfuna um að viðræðunum verði lokið án þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér hafa ýmsir í stjórnarandstöðunni jafnvel opnað á það að gefa eftir kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu til að koma til móts við sjónarmið annarra í málinu. Nú spyr ég hv. þingmann: Úr því að ekki er þessi stóri munur á því að afturkalla umsókn eða láta hana liggja, finnst honum að ræða megi það að hann og þeir sem deila skoðunum með honum (Forseti hringir.) gefi eftir í því efni að gera ekki kröfuna um afturköllun umsóknarinnar til að koma til móts við þá sem hafa verið að spila þessum málamiðlunum út?