143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við tölum um vonda reynslu Evrópusambandsins er það án nokkurs vafa það þegar sótt var um aðild vegna þess að hugur fylgdi ekki máli. Í það minnsta stór hluti stjórnarflokkanna sagði: Ég sæki um til að kanna hvað er í boði. Það er ekki að hugur fylgi máli.

Auðvitað getum við rætt alla hluti en við erum ekki að ræða aðalatriðið. Við ræðum ekki hvað felst í að vera í Evrópusambandinu. Ég er að leita að aðildarsinnum til að skiptast á skoðunum við þá og ég veit að eina leiðin til að hér verði málefnaleg umræða byggð á staðreyndum er sú að við ræðum aðalatriðið.

Hvað felst í að vera í Evrópusambandinu? Það eru engin geimvísindi. Við erum með góðan grunn með þessari skýrslu. (Forseti hringir.) Ef menn treysta henni ekki þá höfum við ýmislegt annað sem við getum nýtt okkur, bæði íslenskt og erlent.