143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[15:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Almenna reglan er sú þegar menn fara í þjóðaratkvæðagreiðslu að uppfylla þarf ákveðin skilyrði. Uppfylla þarf það skilyrði að við vitum hversu hátt hlutfall af þjóðinni þarf að taka þátt til þess að við samþykkjum, það þarf að vera tryggt að upplýsingum sé komið áleiðis á einhvern hátt.

Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslan er stórmerkileg. Ég held að sjaldan hafi nokkur þjóð verið jafn vel upplýst um jafn flókið mál. Það var meðal annars vegna þess að það voru svo margir sem tóku þátt í því sjálfviljugir og menn tókust virkilega á um kosti og galla. Gagnrýnin umræða er oft góð leið til þess að upplýsa fólk.

En það er ekki hægt að ganga í Evrópusambandið án þess að vilja ganga í Evrópusambandið. Það er grundvallaratriði. Þeir aðilar sem eiga að bera ábyrgð á því að fara með þjóðina í Evrópusambandið verða að vilja það. Við erum með lýðræði, við kjósum þingmenn (Forseti hringir.) sem eru í meiri hluta og með ríkisstjórn og það er fullkominn ómöguleiki að ríkisstjórn sem vill ekki ganga í Evrópusambandið sæki um aðild að Evrópusambandinu.