143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[15:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki alveg rétt að við höfum ekki neitt með tilskipanirnar að gera en hins vegar höfum við ekki nýtt þau tækifæri sem við höfum haft fram til þessa. Ég hefði viljað sjá breytingar hvað það varðar. Það snýr ekki bara að uppbyggingu EES-samningsins. Norðmenn hika til dæmis ekki við að lobbíera í Evrópuþinginu út af ýmsu. Við vanræktum það fullkomlega á síðasta kjörtímabili og ég benti margoft á það.

Reyndar varð mér svo mikið um að ég fór í heimsókn á Evrópuþingið og talaði þar við Evrópuþingmenn út af innstæðutilskipuninni sem núna er búið að setja sem tilskipun, sem hentar Íslandi alls ekki svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það er ekki gott fyrir neytendur, sú tilskipun er snara um hálsinn á íslenskri þjóð.

Við þurfum að átta okkur á því að við ráðum engu, við erum lítil þjóð. Danir sögðu við okkur þegar við vildum vera sjálfstæð: Þið eruð of fá til að vera sjálfstæð. Hvað sem okkur finnst um stjórn á eigin landi hefur okkur aldrei gengið betur en þegar við ráðum okkur sjálf. Það hefur enginn stjórnað okkur betur en við sjálf. Við vitum að það er margt sem við megum gera miklu betur en það hefur engum tekist að stjórna okkur betur en okkur sjálfum.

Ef við förum inn munu aðrir stjórna okkur og hví skyldu Evrópuþingmenn í öðrum löndum, með fullri virðingu fyrir þeim, huga sérstaklega að hagsmunum Íslendinga? Það eru ekki Íslendingar sem kjósa þetta fólk. Reyndar er margt valdafólk í Evrópusambandinu ekki kosið af einum eða neinum en hefur gríðarleg völd. Og svo sannarlega eru íbúar í þessum löndum ekkert sérstaklega ánægðir með Evrópusambandið. Óánægja með sambandið hefur vaxið stöðugt frá áratug til áratugar meðal íbúa í aðildarríkjunum. Við erum komin langt frá því þegar Evrópusambandið var lítið og hvert ríki hafði neitunarvald í öllum málum. Meira vald er líka komið til Evrópuþingsins, þar er gert ráð fyrir 750 þingmönnum. Við fengjum sex þar. Og þó að íslenskir þingmenn geti nú verið öflugir (Forseti hringir.) munu þeir ekki stjórna þinginu.