143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil það svo að hv. þingmaður vilji gera hvað sem er til að klára aðildarviðræðurnar. Ég vil biðja hv. þingmann að svara því — ef hann nær því ekki á tveimur mínútum hvet ég hann til að koma þeim skilaboðum á framfæri á einhvern annan hátt — hvað dugi til að hann styðji aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hvað vill hv. þingmaður sjá varðandi hinar svokölluðu sérlausnir og hinar svokölluðu undanþágur sem yrði til þess að hv. þingmaður segði: Ísland á að fara inn? Í þeirri ítarlegu skýrslu sem liggur fyrir er stofnanauppbygging Evrópusambandsins dregin fram, allar hinar svokölluðu undanþágur og sérlausnir sem hafa verið gerðar í aðildarsamningum eru teknar fyrir þannig að ég tel annað útilokað en að hv. þingmaður, og aðrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar, hafi mótað sér skoðun á því hvað þeir vilji sjá.

Það kemur fram í skýrslunni að ekki var búið að leggja fram samningsmarkmiðin í sjávarútvegsmálum eftir allan þennan tíma. Klára átti aðildarviðræður við Evrópusambandið á einu ári, það var sagt við okkur þingmenn þegar þetta var kynnt á sínum tíma og talið sérstaklega gott að Svíar væru í forsæti og því fengjum við hraðferð inn í Evrópusambandið. Það kemur síðan í ljós, þegar menn lesa skýrsluna, að samningsmarkmiðin eru ekki tilbúin. Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt fyrir þessa umræðu að við fáum að vita hvað Samfylkingin vill fá út úr samningum, þ.e. hvaða sérlausnir og undanþágur hún sjái fyrir sér. Hvaða niðurstaða gæti orðið til þess að Samfylkingin færi að berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu?