143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[16:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tvær mínútur í þetta andsvar. Kaflarnir eru 33. Það var búið að opna 27, loka 11, það stóðu fjórir út af. Einn af þeim er erfiður og það er sjávarútvegskaflinn. Það er rétt að vinnan við hann gekk hægar en vonir stóðu til, fyrst og fremst vegna þess að Evrópusambandið er að endurskoða sjávarútvegsstefnu sína. Það var því ekki aðeins töf hér heima, heldur líka þeirra megin. Sá kafli er auðvitað afskaplega mikilvægur fyrir okkur og sérstakur vegna þess að það er engin þjóð innan Evrópusambandsins sem býr við sömu aðstæður og við þar sem sjávarútvegurinn skiptir svo miklu máli. Það er að sjálfsögðu okkar hagur að hann haldi áfram að vera hagkvæmur, eins og hann hefur verið, og verði áfram undirstaða fyrir góðan efnahag þjóðarinnar. Þar liggja ríkir hagsmunir. En niðurstaðan er ekki komin, eins og hv. þingmaður þekkir. Ef ég fengi að ráða mundi ég vilja fara í þá vinnu og fá niðurstöðu. Þetta er í raun eini kaflinn sem er erfiður.

Í skýrslunni sem við erum að ræða er talað um landbúnaðarkaflann sem tiltölulega léttan, sem við héldum fyrir fram að yrði okkur líka erfiður, en stærsti kaflinn af 33 er þessi eini, sjávarútvegskaflinn. Ég tel afar skynsamlegt að fara í vinnuna og sjá hver niðurstaðan getur verið. Mér finnst það … (GÞÞ: Hvað viltu?)Mér finnst auðvitað — það er augljóst, hv. þingmaður og virðulegur forseti, að hagur okkar Íslendingar þarf að vera varinn í sjávarútvegsmálum, þetta er undirstöðuatvinnugrein okkar. Ég vil fá að sjá hvernig niðurstaðan getur verið út úr (Forseti hringir.) þeim kafla. Þegar hún væri komin mundi ég máta hana við aðstæður á Íslandi og meta (Forseti hringir.) hvort hún dygði.