143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins um sambandsríkið, það er ástæða til að benda hv. þingmanni á að lesa einfaldlega skýrsluna sem hér er til umfjöllunar. Þar er ágætlega farið yfir það að engin slík þróun er í gangi. Það er þó ekki þannig að ekki megi auka sameiginlega evrópska ákvarðanatöku. Auðvitað getur ýmislegt verið jákvætt við það að framselja land. Vald. Ég er til að mynda í þeim hópi sem tel að sameiginlegar evrópskar reglur um aga í ríkisfjármálum að hætti Þjóðverja væru ákaflega ákjósanlegar fyrir alla álfuna, fyrir allt markaðssvæði okkar og líka fyrir Ísland. Það væri að mörgu leyti gott fyrir okkur á Alþingi að hafa þann aga sem því fylgdi að þurfa að fylgja sameiginlegum meginreglum um hvað er ábyrgt í ríkisfjármálum vegna þess að því miður höfum við oft ekki kunnað fótum okkar forráð í ríkisfjármálum.

Það er nánast broslegt að heyra hv. þingmann tala um hinn mikla vanda Evrópusambandsins. Hvarvetna í heiminum kaupa menn og selja gjaldmiðil Evrópska seðlabankans — evruna — á mörkuðum úti um allan heim alla daga. Hvergi í veröldinni er að finna menn sem kaupa íslenskar krónur á gengi Seðlabanka Íslands. Það lýsir einfaldlega því að það er Ísland sem er í mikilli kreppu um sín peningamál og sína efnahagslegu stöðu og hefur mikið að sækja í samstarf við önnur ríki og reynslu þeirra.

Um önnur atriði sem hv. þingmaður spurði um mun ég koma að í mínu (Forseti hringir.) síðara svari.