143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf verið opinn fyrir því að taka upp annan gjaldmiðil. Ég var bara að vísa í skýrslu Evrópusambandsins um Ísland sem var dreift í utanríkismálanefnd. Ég skrifaði ekki þá skýrslu. Evrópusambandið sagði að ástæðan fyrir því að okkur hefði gengið þokkalega vel að vinna okkur út úr stöðunni væri sveigjanlegur gjaldmiðill, okkar eigin gjaldmiðill. Evrópusambandið skrifaði það. Allir í utanríkismálanefnd, þar með talinn hv. þingmaður Samfylkingarinnar, fengu skýrsluna. Ég skrifaði það ekki. Ég var ekkert að segja að það væri rétt, ég var bara að segja hvað Evrópusambandið segir.

Við getum lært margt af Þjóðverjum og eigum að gera það. Ég fagna því ef hv. þingmaður beitir sér fyrir því að Samfylkingin verði ábyrg í ríkisfjármálum. Við munum þá sjá gríðarlega breytingu frá áherslunum fyrir síðustu fjárlög. Ég vona að við ræðum það við annað tækifæri.

Hin jákvæðu teikn varðandi landbúnaðinn eru aukaatriði. Ég bið hv. þingmann bara að gera eitt á eftir á þessum tveimur mínútum af því að mér sýnist umræðan ekki verða öllu lengri. Ég mun að vísu segja nokkur orð á eftir en einhverra hluta vegna erum við ekki að ræða þetta efnislega. Hv. þingmaður sagði að það væru sérlausnir á borðinu. Hv. þingmaður sagði að Evrópusambandið hefði aldrei farið í samningaviðræðurnar nema ganga þannig frá því að Ísland mundi samþykkja það og sagði að það mundi ekki gera sömu mistökin og í Noregi. Hv. þingmaður verður að segja frá þessu. Hv. þingmaður er enginn venjulegur maður, eins og segir í ágætum söngtexta, hv. þingmaður er formaður þingflokks Samfylkingarinnar. Hann var formaður í mikilvægum nefndum hér á síðasta kjörtímabili. Hann er innsti koppur í búri fyrrverandi ríkisstjórnarflokks. Hann segir að það sé sérlausn á borðinu. Ekkert er um þetta í skýrslunni vegna þess að menn voru ekki komnir neitt áleiðis með það. Hv. þingmaður verður annaðhvort að segja að það hafi verið fljótfærni hjá honum að segja þetta eða upplýsa þing og þjóð. Þjóðin á rétt á að vita ef það var (Forseti hringir.) sérlausn á borðinu um sjávarútveginn því að hún sést hvergi í skýrslunni og hefur hvergi sést (Forseti hringir.) hjá neinu því landi sem er rakið í skýrslunni. (Forseti hringir.) Það er ekkert sem ég tel að henti (Forseti hringir.) Íslendingum, en hv. þingmaður getur kannski sagt okkur að eitthvað (Forseti hringir.) þar inni henti okkur Íslendingum.