143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að halda aðeins áfram orðaskiptum mínum og hv. þm. Helga Hjörvars. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að koma mjög hreint fram og tala mjög skýrt. Ég hrósa hv. þingmanni fyrir að segja satt og rétt frá. Hv. þingmaður sagði: Varanlegar undanþágur eru ekki í boði. Þetta er það sem allir þeir sem hafa kynnt sér þessi mál vita og hér kemur hv. þingmaður og er ærlegur, hann er ærlegur aðildarsinni, eða hann vill í það minnsta sækja um aðild, og talar um hlutina eins og þeir eru. Það er mikilvægt að við gerum það. Ég er mjög ánægður með hv. þm. Helga Hjörvar sem mér hefur fundist vera til fyrirmyndar — til fyrirmyndar — í þessari umræðu. Ég tel að aðrir aðildarsinnar ættu að taka hann sér til fyrirmyndar. Hv. þingmaður hefur kynnt sér málin og kemur hingað og segir þingi og þjóð nákvæmlega hvernig hlutirnir eru.

Það var hins vegar ekki nákvæmt hjá hv. þingmanni að segja að undanþágan hjá Finnlandi byggi á því að þar sé kalt. Það er ekki þannig að það muni breytast ef loftslagsbreytingar verða, það hefur með breiddargráðuna að gera. Þetta er í sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins og er því umbreytanlegt af hálfu Evrópusambandsins.

Eins og kemur fram í Lissabonsamningunum erum við alltaf að sjá fleiri sameiginlega málaflokka sem eru háðir meirihlutasamþykkt í ráðherraráðinu. Og framkvæmdastjórnin er auðvitað ekki fulltrúi einstakra þjóðríkja, framkvæmdastjórnin er fulltrúi Evrópusambandsins sjálfs.

Virðulegi forseti. Ég vona að menn skoði líka kaflann um kvótahoppið á bls. 138. Þar er verið að takast á við þann vanda að viðkomandi þjóðlönd vilja það sama og við Íslendingar höfum, Íslendingar veiða í íslenskri lögsögu, en þeim hefur ekki tekist að halda því þannig. Spánverjar byrjuðu fljótlega eftir að þeir gengu í Evrópusambandið að sækja á bresk fiskiskip. Það er búið að reyna allra handa aðferðir og lagasetningar til að halda þeim frá þeim fiskimiðum en það hefur ekki tekist. Í þessari stuttu ræðu ætla ég ekki að lesa beint upp úr kaflanum en þetta er á bls. 138, um kvótahoppið, og þar er sérstaklega greint hvað sé hægt að gera til þess að lágmarka þetta og það er afskaplega lítið.

Það er reyndar lítið rætt í krónum og aurum, en menn geta auðveldlega kallað það upp á Vísindavefnum vegna þess að búið er að gera margar úttektir á því, beinn nettókostnaður Íslendinga af því að vera í Evrópusambandinu. Hann skiptir milljörðum. Það er verið að tala um að þetta séu 3–6 milljarðar miðað við verga landsframleiðslu 2010. Nú er 2014 þannig að það verður eitthvað meira en það. Sumar úttektir hafa sýnt fram á hærri upphæð. Þetta er nettó, þetta er ekki brúttó. Ég veit alveg hvernig er að eiga við það að halda hallalaus fjárlög. Þetta er eitt af því sem við þurfum að taka mið af þegar við ræðum þessi mál.

Á sama hátt verðum við að átta okkur á þeim tækifærum sem við höfum núna og höfum ekki ef við göngum í tollabandalag. Það er lykilatriði að við séum meðvituð um að við erum að fórna viðskiptafrelsi. Við getum núna samið við hvern sem er um hvað sem er í milliríkjaviðskiptum. Þegar kemur að hlutum sem ég er ósáttur við, t.d. varðandi innflutningshamlanir á ýmsum vörum, er það þannig núna að við getum breytt því öllu sjálf. Ef við göngum í Evrópusambandið erum við lokuð inn í tollabandalagi þeirra. Þeir eru í viðskiptastríði, t.d. við Bandaríkin — eins og við höfum orðið fyrir, við vorum sofandi hvað þann þáttinn varðar þegar við gengum í EES — og eru með allra handa tæknilegar viðskiptahindranir á bandarískum vörum. Ég held að birtingarmynd þess sé þegar við erum í alvöru með fólk í fullu starfi við að elta bandarískt Cocoa Puffs í verslunum hér á landi. Það verður að segjast eins og er að við gætum nýtt þá fjármuni í sameiginlegum sjóðum til þess að gera eitthvað annað en standa í því. Ég er ekki að mæla með því að fólk borði þá vöru, hvorki þá evrópsku né (Forseti hringir.) þá bandarísku, mér skilst að sú evrópska sé með meira af sykri, það er aukaatriði. En það er ekki forsvaranlegt að eyða skattfé (Forseti hringir.) almennings á þennan hátt.