143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. kornungum þingmanni fyrir góðar spurningar. Hann benti réttilega á að það er ekkert rosalega langt síðan hann var enn yngri en hann er í dag og það er gott þegar fulltrúar sem flestra kynslóða eru á hv. þingi. Hann er með mjög góða spurningu. Hvað þurfum við að gera? Við höfum stigið hænuskref þegar kemur að þessum hlutum. Að vísu höfum við stigið stór skref varðandi fríverslunarsamninga og almenna reglan með þá er þessi: Ég gef eftir tolla hér og opna fyrir fjárfestingar og annað slíkt ef þú gerir slíkt hið sama.

Það er mikilvægt að halda því áfram. Við eigum að nýta þá möguleika miklu betur. Við eigum að leggja miklu meiri áherslu á EFTA en við gerum í dag og auðvitað tvíhliða viðræður. Í EFTA þurfum við bara að semja við þrjá. Við þurfum að semja við Svisslendinga, Norðmenn og Liechtensteina og þeir eru allir tilbúnir að ganga í þessa hluti. Við erum búin að gera þetta mikið en þurfum að gera enn meira.

Síðan þarf bara að samþykkja þingsályktunartillögu mína um viðskiptastefnu Íslands sem ég hef lagt fram nokkrum sinnum og hefja þessa vinnu sem hefur það að markmiði að við skilgreinum hvað það er sem við erum að vernda. Staðan er þannig og ég hef tekið það upp í þinginu, er búinn að taka þetta svo oft upp, að ef menn líta á landbúnaðarstefnu Íslands frá viðskiptasjónarmiði er eins og markmið okkar séu sérstaklega að vernda kjúklingaframleiðendur, en ekki til dæmis lambakjötsframleiðendur, ef menn bara líta á það sem framleiðendur fá miðað við heimsmarkaðsverð.

Það er nefnilega meira að segja þannig, af því að menn líta oft svo á að mikil tækifæri séu í því að fara í sameiginlega mynt svo bara eitt dæmi sé tekið, að við þurfum alltaf, ef við ætlum að gera það, sama hvort það er evran eða annað, að vinna heimavinnuna okkar. Það mun enginn gera þetta fyrir okkur. Vilji er allt sem þarf. Síðan þarf að vinna skipulega og ég hvet hv. þingmann til að kynna (Forseti hringir.) sér þingmálið mitt og styðja það til enda.