143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða neyðarástand það er sem kallar á að ríkisstjórnin gangi jafn hart og hratt fram og raun ber vitni, bíði ekki eftir niðurstöðu umræðu hér um skýrslu Hagfræðistofnunar og neiti að bíða eftir skýrslu sem aðilar vinnumarkaðarins eru með í vinnslu. Hvaða nauðir eru það sem reka ríkisstjórnina í þetta fljótræði?

Ég tel ekki líkur á að bráð hætta sé á því að Ísland verði innlimað í Evrópusambandið án nokkurs fyrirvara á næstu dögum. Ég spyr því: Hvers vegna þessi flýtir? Hvers vegna er gengið lengra en kveðið er á um í stjórnarsáttmála og lengra en forustumenn ríkisstjórnarflokkanna sögðu í aðdraganda síðustu kosninga? Telja forustumenn ríkisstjórnarinnar sig ekki skuldbundna af skýrum yfirlýsingum í aðdraganda kosninga?