143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú varla að elta eigi ólar við útúrsnúninga hv. þingmanns um að menn hafi ekki verið búnir að lesa skýrsluna. Það má velta því fyrir sér hvernig sú umræða sem hér átti að fara fram um skýrsluna, en fór að sjálfsögðu fram um eitthvað allt annað, hafi þá tengst skýrslunni.

Ef menn hefðu ætlað sér að flýta sér og æsa sig yfir því að draga umsóknina til baka hefðu menn gert það á sumarþinginu. Það var hins vegar ákveðið að ígrunda málið vel. Það var ákveðið að kalla, samkvæmt stjórnarsáttmálanum, eftir þessari skýrslu. Skýrslan kom. Niðurstaðan er að okkar mati mjög skýr. Hún segir ákveðna hluti sem við teljum að undirstriki það sem við höfum sagt að við eigum að halda okkur utan Evrópusambandsins og því er þessi ákvörðun tekin. Það er enginn flýtir í málinu. Ef það hefði verið hefðum við einfaldlega dregið umsóknina til baka síðasta sumar hér á sumarþinginu.