143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom mörgum á óvart, segir hv. þingmaður. Ég velti fyrir mér af hverju það hefði átt að koma á óvart í ljósi þess að stefna flokkanna, samkvæmt stjórnarsáttmála, er nokkuð skýr: Við viljum standa utan Evrópusambandsins. Ekki var það nú flýtirinn, flýtirinn var kannski fyrst og fremst 2009 þegar sótt var um, það var gert í hvelli um sumarið.

Hér er spurt um viðhorf til þjóðaratkvæðagreiðslu eða reyndar til þeirrar eftirspurnar sem er eftir því að fá að greiða atkvæði um hvort halda eigi áfram viðræðum, ef ég hef skilið spurninguna rétt. Þá hef ég nú sagt, og stend að sjálfsögðu við það, að ég fagna því að sjálfsögðu að fólk láti skoðun sína í ljós. En eins og ágætur þingmaður sagði hér í þingræðu þá var jú kosið, það fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla 2009 þegar þá var kosið og þar fékk flokkur góða kosningu sem var með það á stefnuskrá sinni að halda áfram. Á ekki það sama við núna nokkrum árum síðar?

Varðandi tillögu hv. þingmanns og Vinstri grænna hef ég ákveðnar efasemdir um hana. Mér finnst spurningin í henni ágæt. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að segja neitt annað um hana að svo komnu máli. (Forseti hringir.) Hún fer vonandi til nefndar um leið og sú tillaga sem hér er mælt fyrir.