143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, kom á óvart að einhverju leyti. Miðað við þau orð sem ítrekað hafa verið rifjuð upp, sem féllu af hálfu hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar, hljóta væntanlega flestir að hafa reiknað með því að afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á málinu mundi á einhvern hátt fela í sér þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hæstv. ráðherra nefnir hér fyrri kringumstæður. Mér finnst mikilvægt að við horfum til þess að þetta mál hefur verið mjög lengi í umræðu í samfélaginu. Þetta hefur verið lengi í umræðu, ýmsir félagar í Framsóknarflokknum fyrr á árum orðuðu það meira að segja svo að mikilvægt væri að þjóðin tæki ákvörðun um þetta mál því að annars yrði það áfram í hinni pólitísku umræðu.

Ég spyr því hæstv. ráðherra aftur hvort hann telji að málið sé þá, ef tillagan sem hann mælir hér fyrir verður samþykkt, komið út úr heiminum að einhverju leyti, hvort hann telji að það hverfi úr hinni pólitísku umræðu. Hins vegar bendi ég á líka á að sú tillaga sem ég vitnaði hér til áðan snýst um að gera formlegt hlé á viðræðum (Forseti hringir.) og það gerir ríkisstjórninni þá kleift að koma í veg fyrir þann ómöguleika sem hefur svo mikið (Forseti hringir.) verið hér í umræðunni.