143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú aldeilis greiningin og matið sem þar fór fram þá. Ég man reyndar eftir því á flokksþingi að þar var einmitt borin upp tillaga um hvort slíta ætti viðræðum við Evrópusambandið og hún var felld, ég held að það sé full ástæða til að rifja það upp.

Þessi fullyrðing um að hag Íslands sé betur borgið utan ESB er því ekki byggð á öðru en ályktun þings Framsóknarflokksins. Ég vísa í fjölmargar skýrslur sem hafa verið gefnar út. Ég held að þetta sé ekkert einfalt spursmál, spurningin um hvort hag Íslands sé betur borgið innan eða utan ESB. Hins vegar hafa komið út ýmsar skýrslur. Skýrsla á vegum McKinsey sýnir mjög litla framleiðni í íslensku samfélagi sem mundi t.d. batna ef við færum í myntsamstarf við Evrópu. Skýrsla Seðlabankans um valkosti í gjaldmiðilsmálum sýnir glöggt að evran er sigurstranglegri möguleiki. Með inngöngu í ERM II sem undanfara, þangað til við gætum mætt skilyrðum fyllilega, er möguleg leið til þess að afnema gjaldeyrishöft. Það er lýðræðishalli út af aðild okkar að EES. Norskar skýrslur hafa sýnt alvarleika þess máls. (Forseti hringir.)

En mig langar að spyrja, fyrst ekkert mat liggur í raun og veru að baki þeirri afstöðu að hag Íslands sé betur borgið utan (Forseti hringir.) ESB, getum við ekki að minnsta kosti verið sammála því að þjóðin ákveði þetta?