143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi verklag og samkomulag um framhald mála í þinginu er alveg ljóst að vilji okkar stendur til samkomulags um þetta mál en það samkomulag þarf að ná um efnisþætti málsins. Það er mikilvægt að samstaða verði um leið áfram sem þjóðin getur lifað við og sem bindur þjóðina saman í þessu máli en slítur hana ekki í sundur. Það kann að reynast holur sigur fyrir hv. þingmann og skoðanasystkin hans að knýja hér fram með tímabundnu meirihlutavaldi fullnaðarsigur að því er þeir halda í þessu máli, sem síðan viðheldur ágreiningi og togstreitu um þetta mál í áratugi.

Að því er varðar spurningu hv. þingmanns um sjávarútvegsstefnuna er svarið já. Í samtölum embættismanna við kollega þeirra kom fram skilningur á því að sérlausnir þyrfti til fyrir Ísland. Í samskiptum sem ég átti á pólitískum grunni við m.a. stækkunarstjórann kom fram skýr viðurkenning á því að hann teldi mögulegt að mæta sérþörfum Íslendinga. Það kom ekki til þess að semja um það vegna þess að ýmsar aðrar hindranir voru í vegi. Fyrirferðarmest á síðasta kjörtímabili var annars vegar deilan um makríl, sem frændur okkar Norðmenn nýttu sér af mikilli list til að tryggja að ekkert gengi í samningum okkar við Evrópusambandið, og hins vegar var bið okkar eftir endurskoðun sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar, sem var mjög skynsamleg af hálfu Íslands enda óeðlilegt að nýta sér ekki það lag sem var þegar Evrópusambandið var að bæta grunnforsendur sjávarútvegsstefnunnar. Aldrei var rætt um að hvika frá grundvallarhugmyndum Evrópusambandsins því að eins og ég rakti hér áðan eru ólíkar útfærslur á ólíkum svæðum (Forseti hringir.) í ljósi aðstæðna innan ramma hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu og að mínu viti er svigrúm þar til að mæta íslenskum sérþörfum.