143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu kemur ekkert fram um það annað en almenn vinsamleg orð einstakra embættismanna um að sérlausnir af einhverju tagi hljóti að nást. Það er ekkert sem hönd á festir. Ég lít svo á að ummæli hv. þingmanns í svari við andsvari mínu staðfesti það, að það sé ekkert sem hönd á festir, menn segi bara: Jú, heyrið þið, við hljótum að finna einhverjar sérlausnir.

Ég rakst ekki á það í neinum gögnum málsins að neitt hefði komið fram sem hönd á festi í því sambandi enda var það svo, eins og hv. þingmaður rakti réttilega, að ferlið hvað varðar sjávarútvegsmálin og raunar fleiri kafla stoppaði tiltölulega snemma. Það gerðist lítið í þessum málum, ef nokkuð, í samskiptum Evrópusambandsins og Íslands frá 2011. Það var allt í frosti. Fyrir því voru ýmsar ástæður. Hv. þingmaður nefnir makríl og endurskoðun sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.

Maður veltir því hins vegar fyrir sér hvort það hafi hugsanlega staðið í Evrópusambandinu eða íslenskum stjórnvöldum að leggja fram rýniskýrslur sem hefðu kallað á opnunarviðmið og aðra þá pappíra sem hefðu hugsanlega varpað ljósi á það hversu djúp gjá var milli Evrópusambandsins og Íslands í þessu sambandi.

Varðandi samkomulag um málsmeðferð verð ég að segja að fyrsta skref okkar hlýtur að vera að reyna að ná einhverjum skynsamlegum niðurstöðum varðandi það hvernig við ætlum að fara með þessi mál í framhaldinu, í framhaldi umræðunnar, í framhaldi nefndarstarfs. Ég verð að játa að ég er ekki jafn trúaður og hv. þingmaður á það að efnisleg niðurstaða verði í samkomulagi en ég held að það verið okkur öllum til góðs ef við getum unnið málið a.m.k. þannig að við getum deilt um efnisatriðin en minna um formsatriðin.