143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gætti sín á því að setja fram spurningu sína í viðtengingarhætti og vissulega get ég svarað henni í viðtengingarhætti. Að sjálfsögðu gæti slíkt haft áhrif, að sjálfsögðu gæti afstaða manna haft áhrif í svona ferli.

Ég ætla að nefna tvennt, í fyrsta lagi samningsafstöður af því að hann nefnir þær sérstaklega. Þær tel ég raunar að hafi verið teiknaðar upp nokkuð skýrt strax í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar 2009, ekki síst hvað varðar sjávarútveg og landbúnað, sem hafa verið stóru málin, og ég tel að þeir samningahópar sem störfuðu, sem voru að sjálfsögðu ekki skipaðir stjórnmálamönnum heldur einstaklingum af ólíkum sviðum, hafi fylgt þeim meginlínum sem þar voru lagðar. Og þar tel ég ekki að þetta hafi haft áhrif.

Hvað varðar IPA-styrkina, af því að hv. þingmaður spyr um þá, er ekkert launungarmál að þeir voru umdeildir og því voru dregnar upp ákveðnar línur um það hvaða verkefni ætti að styrkja með þeim hætti og hvaða verkefni ekki. Líklega hefðu þær ekki verið dregnar upp ef í ríkisstjórn hefðu allir verið fylgjandi Evrópusambandsaðild. Þær lutu ekki almennum reglum Evrópusambandsins heldur voru sett takmörk á það.

Síðan hvað varðar síðustu spurningu hv. þingmanns sem laut að bókaskrifum um ríkisstjórnarborðið á ég líklega eftir að skrifa mína bók. Eins og allir góðir bókmenntafræðingar vita skiptir verulegu máli hver segir söguna þegar kemur að upplifun hvers og eins við ríkisstjórnarborðið og ég er satt að segja ekki í nokkrum vafa um að upplifun mín sem sögumanns af þessi ríkisstjórnarborði yrði önnur en þeirra hæstv. fyrrverandi ráðherra sem þegar hafa skrifað um sínar upplifanir.