143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kemst ekki hjá því að túlka svar hv. þingmanns á þann veg að við þurfum ekki að aðlaga okkur upp að einhverju marki að Evrópusambandinu meðan á viðræðunum stendur, þ.e. ekkert umfram það sem við þurfum hvort sem er að gera vegna EES. (Gripið fram í: Varðandi þessa …) — Varðandi þessa 11 kafla.

Augljóslega er algjör samhugur um það meðal allra að hvað svo sem kæmi út úr viðræðunum yrði það lagt í dóm þjóðarinnar. Væntanlega eru til flokkar í landinu sem mundu standa við það loforð.

Hv. þingmaður víkur að því að Evrópusambandið sé eins og það er og það standi bara til boða að taka því eins og það er. Evrópusambandið breytist og sérstaklega þegar kemur að sjávarútvegsstefnu því að hún hefur verið í mikilli endurskoðun hjá Evrópusambandinu einmitt vegna þess að það þróast með tímanum, alveg eins og Ísland.

Ég sé ekki enn hvaða þróun hefur átt (Forseti hringir.) sér stað á Íslandi vegna viðræðnanna við ESB sem hefði ekki átt sér stað vegna EES eða hreinlega vegna þess að um var að ræða góðar hugmyndir sem við mundum taka upp af sjálfsdáðum hvort sem er.