143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Það nær þó ekki alveg að svara því af hverju þessu flýtir er á hlutunum. Ég kann að meta það að ríkisstjórnin sýni vilja sinn afdráttarlaust. Að sama skapi var það afdráttarlaust, í það minnsta af hendi flokks hv. þingmanns, að þjóðin ætti að fá að taka þessa ákvörðun. Ég spyr því enn og aftur: Af hverju þessi flýtir? Það hefur verið þrýst gríðarlega mikið á það hér í þinginu að þetta mál fari sem hraðast í gegn og í raun ofan í þá vinnu sem er grundvöllurinn að ákvörðunartöku um hvort slíta eigi viðræðum eða ekki.

Ég veit að hv. þingmaður er vandvirkur í störfum sínum. Því kemur mér það á óvart að hv. þingmanni, formanni utanríkismálanefndar, hafi ekki fundist eðlilegra verklag að við mundum fyrst (Forseti hringir.) fara í gegnum alla vinnuna í skýrslunni og síðan taka ákvarðanir.(Forseti hringir.)

Síðan langaði mig (Forseti hringir.) að spyrja hvort mögulegt sé að fá svör við því hvort hægt sé að gera hlé á meðan vilji þjóðarinnar er kannaður.