143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var svolítið merkilegt svar: Krónan verður framtíðargjaldmiðill Íslendinga þar til annað verður ákveðið. Það vekur strax upp spurninguna um hvenær eigi þá að ákveða það og hvernig. Myntsamstarf við Evrópu kemur ekki til greina, sem er hinn kosturinn sem Seðlabanki Íslands hefur nefnt í umfangsmikilli skýrslu. Einhliða upptaka annarrar myntar kemur ekki til greina. Ég veit ekki hvort það eru einhverjir frekari valkostir. Það væri gaman að heyra hvaða valkostur kemur þá til greina. Í öllu falli gefur þetta svar ekki tilefni til þess, heldur þvert á móti, til að loka dyrunum. Þegar skoðanir eru svona skiptar, og m.a. í flokki hv. þingmanns, gefur þetta svar og allar kringumstæður og allar röksemdafærslur og umræður um gjaldmiðilsmál alls ekki tilefni til að loka dyrunum á mögulegt myntsamstarf við Evrópu. Þetta svar gaf ekki tilefni til þess.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Af hverju er ekki betra að kanna (Forseti hringir.) til hlítar, faglega og með öllum upplýsingum, hvort við eigum erindi í myntsamstarfið og leyfa þjóðinni, atvinnulífinu, (Forseti hringir.) heimilunum síðan að velja?