143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert að mála upp allt of dökka mynd af ástandinu í sumum af þeim ríkjum sem við getum kallað jaðarríki Evrópu, en það hefur hins vegar komið í ljós að í einstökum aðildarríkjum sem hafa notað evru hefur evran ekki verið trygging gegn því að þau taki á sig efnahagsleg áföll. Þau geta komið út með ýmsum hætti. Það er auðvitað þekkt, eins og hv. þingmaður veit, að í mörgum þeirra ríkja Evrópu sem hafa tekið á sig efnahagsleg áföll á undanförnum árum birtist það meðal annars í gríðarlega háu atvinnuleysi sem rekja má til þess að sveigjanleikann skortir í gjaldmiðilsmálum. Þarna er því auðvitað um kosti og galla að ræða. Það eru ákveðnir kostir varðandi viðskiptakostnað fyrirtækja og þess háttar sem er engin ástæða til að gera lítið úr, en það eru líka gallar. Ég fer ekki ofan af því að á undanförnum árum, í þeim hremmingum sem við höfum lent í, hafi það verið kostur fyrir okkur að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil. Það hefur ekki verið sársaukalaust ferli, ég geri mér grein fyrir því, en ég held þó að það hafi gefið okkur möguleika til þess að ná fótfestu fyrr en ella hefði verið.

Að sjálfsögðu er það svo að menn hafa skiptar skoðanir um þetta. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan eru í mínum flokki og mínu umhverfi mjög skiptar skoðanir um það. Ég lýsti í ræðu minni áðan þeirri persónulegu skoðun að við yrðum að bíta í það sem sumum finnst súrt epli, að lifa með krónunni og reyna að lágmarka ókostina og hámarka kostina.