143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki þessa nauðung. Það hefur verið sagt undanfarinn áratug ef ekki lengur að við verðum að búa við krónuna, evran verði ekki tekin upp í náinni framtíð. Ef við segjum þetta alltaf verður evran aldrei tekin upp, þá munum við upplifa hér bólu eftir bólu, hrun eftir hrun, tilfærslu fjármuna í íslensku hagkerfi á óréttlátan og ógagnsæjan hátt út af oft ófyrirséðu hruni krónunnar. Nú erum við með krónu í gjaldeyrishöftum. Það getur ekki gengið til langs tíma og við erum með afskaplega lítil plön, sýnist mér, um það hvernig á að aflétta þessum höftum.

Varðandi evruna og kosti og galla hennar finnst mér það alveg ágætlega rakið til dæmis í skýrslu Seðlabankans, og í mörgu því sem samtök í atvinnulífinu hafa verið að benda á, að upptaka evru á Íslandi, aðild að myntbandalagi og ERM II í undanfara þess — í samstarfi við Seðlabanka Evrópu, sem mundi verja íslensku krónuna ef við værum í ERM II, stunda viðskipti með hana og verja hana innan ákveðinna vikmarka — það stöðuga gengi sem við fengjum með þessu, mundi nýtast Íslendingum til að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf. Þess vegna er það engin tilviljun að það eru nú nýjar útflutningsgreinar, eins og í hugverkaiðnaði og skapandi greinum, sem eru mjög mikið að kalla eftir myntsamstarfinu. Þær telja núverandi grundvöll efnahagslífsins, sem er í krónunni, ekki til þess fallinn einfaldlega að stunda heilbrigðan fyrirtækjarekstur til áætlunargerðar og heimilin hafa líka fundið fyrir því. Þannig að sterkar líkur eru á því að evran mundi frekar auka atvinnu á Íslandi.

Ástæður atvinnuleysis í Evrópuríkjunum eru margs konar, t.d. bara í vinnulöggjöf og í misjöfnum hefðum á vinnumarkaði, eins og til dæmis á Spáni, svo að dæmi sé tekið. Það hefur verið langvarandi atvinnuleysi, (Forseti hringir.) meðal annars út af vinnuumhverfinu þar, ekkert endilega (Forseti hringir.) tengt evrunni.