143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það vekur nokkra undrun að hér skuli á forsetastóli vera tilkynnt um að til standi að halda fund formanna stjórnmálaflokkanna nú þegar þing er komið saman, þegar menn hafa ekki nýtt þá viku sem gafst til samtala að nokkru leyti og ekki einu sinni svo mikið sem tekið upp símann og kannað á nokkurn hátt með hvaða hætti hægt væri að ræða áfram þá tillögu sem hér liggur fyrir.

Við skildum við málið þannig fyrir tæpum tveimur vikum að nýta ætti þetta tækifæri. Það hefur ekki verið gert. Ég hlýt að lýsa mikilli óánægju með að formenn stjórnarflokkanna virði ekki aðra þingmenn hér í landinu viðlits með samtali um verklag í þinginu og um örlög mikilvægra ágreiningsmála. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)