143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir þessi kúnstugu fundarboð með formönnum stjórnmálaflokkanna. Það er ekki á hverjum degi sem maður er upplýstur um eitthvað slíkt af forsetastóli. Satt best að segja kemur það mér á óvart, eftir að virðulegur forseti hjó á hnút hvað varðar þingstörf fyrir nefndaviku og lagði til ákveðnar forsendur fyrir samkomulagi um meðferð þingstarfa þar sem hann lýsti því mjög skýrt og greinilega að mikilvægt væri að dagarnir fram undan yrðu nýttir til að ræða hér mál til að koma betra skikki á þingstörfin, og verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með að ekkert hafi orðið af því í þessari viku. Þrátt fyrir að einhverjir hafi átt hér óformleg samtöl hefur ekki verið boðað til þess fundar sem hæstv. forseti boðar nú til. Það hefði auðvitað verið óskandi að þessir dagar hefðu verið nýttir í miklu betra mæli eins og til stóð.

Eitt af vandamálunum við þingstörfin er að hér er aldrei nokkur hlutur ræddur fyrr en á síðustu stundu. Slík vinnubrögð skila ekki endilega bestu fundunum eða bestu ákvörðununum. Ég hlýt því að undrast það að þessi tími hafi ekki verið nýttur fyrr en nú er skyndilega boðað til fundar.