143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:22]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það var einmitt þetta sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kom inn á í lok athugasemdar sinnar. Það er fullkomlega eðlilegt að menn geri hlé á fundi ef fram á að fara fundur milli formanna stjórnmálaflokkanna til að ræða það mál sem er hérna á dagskrá.

Ég vil þess vegna leggja til við hæstv. forseta að gert verði hlé á þingfundi að loknum óundirbúnum fyrirspurnatíma svo menn fari ekki í ræður, ekki vitandi nákvæmlega hver niðurstaðan verður úr samtali formannanna.

Auðvitað hefði þessi fundur átt að vera haldinn í síðustu viku, í nefndaviku, eins og talað var um en ekki núna korter fyrir umræðuna um tillöguna sem allur þessi styr hefur staðið um. Þetta er satt best að segja mjög undarleg atburðarás sem hér er boðið upp á.