143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Einbeittur átakavilji einkennir framgöngu forsætisráðherra og fjármálaráðherra í þessu máli eða framgönguleysi öllu heldur því ellefu dagar hafa farið til spillis og ónýtis fyrir þingheimi. Það var öllum ljóst að það mál sem nú hefur aftur verið sett á dagskrá var í fullkomnum hnút. Samstaða var um það með öllum flokkum að nýta ætti það hlé sem gafst til að leita gagnkvæms skilnings um það hvernig ætti að halda umfjölluninni áfram en ekki hefur verið lágmarksviðleitni til þess.

Það er ástæða til að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa hlutast til um að það yrði þó haldinn fundur en ég tek þá undir óskir þess efnis að meðan sá fundur fer fram verði gert hlé á þingfundi og umræða um hið umdeilda dagskrármál hefjist ekki því það er algerlega tilgangslaust að hefja þá umræðu fyrr en formenn flokkanna hafa lokið (Forseti hringir.) sínum samræðum.

Í framhaldi af því má þá ræða (Forseti hringir.) hvort taka eigi nytsamlegri mál á dagskrá eins og lækkun gjalda á Íslendingum.