143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um mjög flókið og vandasamt mál sem vakið hefur miklar deilur meðal þjóðarinnar. Yfir 20% kosningarbærra manna hafa skrifað undir hvatningu til Alþingis um að leggja þetta mál til hliðar og láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Forusta ríkisstjórnarflokkanna hirðir ekki um að virða eðlilegt samráð við Alþingi Íslendinga, um það snýst þetta mál.

Ég óska eftir því að forseti segi það skýrt hér á forsetastóli að umræðu um þetta mál verði ekki fram haldið fyrr en að loknum fundi formanna flokkanna. Ég óska þá eftir því að annaðhvort verði önnur mál tekin á dagskrá eða að fundi verði frestað þar til að slíkur fundur hefur farið fram.

Ég óska líka eftir að hlé verði gert á þingstörfum og þetta mál ekki rætt til að okkur í stjórnarandstöðunni gefist ráðrúm til að ræða saman (Forseti hringir.) áður en við hittum forustumenn stjórnarflokkanna. Þessir menn hafa kosið að nýta tíma sinn frekar í ferðalög til fjarlægra landa (Forseti hringir.) sem þeir telja þjóna brýnum íslenskum hagsmunum (Forseti hringir.) en þeir geta ekki komið svona fram við Alþingi Íslendinga.