143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er farinn að taka eftir nokkuð skýru mynstri við að vinna á þessum vinnustað, það er fyrirbærið „samkomulag“ sem virðist þýða kannski eða hugsanlega eða eitthvað í þeim dúr. Það þýðir vissulega ekki samkomulag. Maður getur eiginlega gengið að því sem gefnu að þegar gert er samkomulag hér haldi það jafnan ekki.

Ég er ekki einu sinni viss um að samkomulagið hér haldi einu sinni í um 50% tilfella, ég er ekki viss um það. Það væri gaman að reikna það út einhvern tímann.

En mér finnst líka sjálfsagt að þegar boðað er til fundar, svona burt séð frá því hvað hefðirnar segja, að tilgreint sé hvenær fundurinn verði. Við píratar erum í þriggja manna þingflokki. Ef formaður okkar eða varaformaður er á fundi vantar þriðjung flokksins í þingsal. Mér finnst því algjörlega sjálfsagt að hlé sé gert á þingfundinum meðan sá fundur stendur yfir sem forseti hefur hér boðað til þess að við getum unnið starf okkar vegna þess að það vantar þriðjung þingflokksins ef það vantar einn mann, (Forseti hringir.) sérstaklega í ljósi þess að þegar samkomulag er gert hérna má engu treysta. (Forseti hringir.) Það er sjálfsagt að fresta þessum fundi, gera hlé á honum þar til þessum fundi lýkur, jafnvel þótt það sé bara til að tryggja að hagsmunir allra sem að borðinu koma séu ljósir fyrir fram.