143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:37]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að taka undir orð hv. þingmanns sem hér talaði síðast, því miður hefur það verið þannig undanfarið að samkomulag hefur ekki endilega haldið.

En hér erum við að tala um forgangsröð ríkisstjórnarinnar, það er greinilegt að ekki er hægt að setja þetta mál til hliðar á meðan rætt er við formenn flokkanna eða aðra, það lítur að minnsta kosti út fyrir það, og ekkert annað hægt að taka á dagskrá fyrr en þessu máli lýkur. Mig langar að vita: Urðu einhver straumhvörf í viðhorfi hæstv. forsætisráðherra hérna áðan? Haldinn var fundur með þingflokksformönnum og formenn hafa verið hér til viðtals eins og komið hefur fram, en allt í einu núna þegar þingfundur er settur virðist sem hæstv. forsætisráðherra sé reiðubúinn að eiga hér samtal. Það er afar sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt, og þetta er ekki eitt af því sem hæstv. forseti hefur boðað að eigi að lagfæra, þ.e. ásýnd þingsins. Framkoma hæstv. forsætisráðherra er algjörlega ólíðandi.