143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta utanumhald um þetta mál. Það er sannarlega ekki við hann að sakast hver staðan er orðin í því. Hins vegar hljóta allir að sjá að ekki er annað tækt en að gera hlé á umræðunni í þinginu meðan þessi nýboðaði fundur á sér stað. Það gengur ekki öðruvísi.

Menn hljóta að sjá að það er sanngjörn og eðlileg ósk þingmanna hér að úr því að forsætisráðherra, sem í þessu tilviki kemur fram sem formaður annars stjórnarflokksins, ætlar að láta svo lítið að mæta til fundar verðum við að gera hlé á þingfundi á meðan.

Það skýrir það kannski að vísu að ekki voru notaðir dagarnir ellefu til að kalla til fundar að varaformaður Framsóknarflokksins, hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra með meiru, gerir úr ræðustól þingsins lítið úr samkomulaginu, gerir það hlægilegt, (Forseti hringir.) og notar tækifærið til að spotta þingið og (Forseti hringir.) í raun samkomulagið sem hér lá fyrir. Það er kannski skýringin á því að forusta Framsóknar lítur svo á að þetta samkomulag hafi ekki verið nokkurs virði og kannski þá af því að (Forseti hringir.) menn settu stafina sína undir eitthvað annað en það sem þeir skrifuðu sjálfir.

(Forseti (EKG): Forseti minnir þingmenn á að virða tímamörk.)