143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar við lögum af stað í nefndavikuna reiknuðum við með að vikan yrði notuð til þess að tala hópinn á Alþingi saman en ekki sundur. Ég geri athugasemdir við það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði hér áðan þegar hann talaði um harðan tón í stjórnarandstöðunni.

Horfið til þess hvað gerðist. Við fáum skýrslu samkvæmt loforði ríkisstjórnarinnar um ESB-málið. Mitt í þeirri umræðu er kastað framan í okkur tillögu um að hætta við allt málið. Það sem verra er, við þurftum að fara í hörku til að láta breyta þar greinargerð sem er með ásakanir á okkur um að hafa brotið stjórnarskrána. Svo geta menn staðið hér og sagt að það sé harka í okkur. Harkan er fullkomlega ríkisstjórnarmegin sem af ófyrirleitni og með fullkomnu skilningsleysi gagnvart þjóðinni ætlar að keyra ákveðið mál í gegn. Það er skýlaus krafa okkar að við fáum að vita með hvaða hætti á að vinna með þetta mál. Er hér fundur flokksformanna, er eitthvert innihald á þeim fundi? Stendur eitthvað til að gera (Forseti hringir.) eða á bara að reyna að þæfa þetta mál áfram?

Það er það sem við erum að reyna að fá skýringar á hjá hæstv. forseta.