143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

ummæli forsætisráðherra í kosningabaráttu 2009.

[15:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Margt hefur komið upp á yfirborðið síðustu viku og vikur sem gefur tilefni til að inna hæstv. forsætisráðherra svara og nú væri heppilegt að hafa lengri fyrirspurnatíma og fleiri möguleika en þingsköp kveða á um. Ég ætla að einskorða mig við eitt.

Í Kastljósi síðustu viku afneitaði forsætisráðherra bréfi sem hann skrifaði til kjósenda á kjördag eða daginn fyrir kjördag 2009. Hann var spurður út í staðhæfingar í því bréfi þess efnis að hægt væri að fá sérlausnir í samningum við Evrópusambandið. Hæstv. ráðherra hafnaði þeirri túlkun, sagði að þetta hefði aldrei verið hans afstaða og að hann hefði ekki skrifað þetta bréf, þetta hefði verið sett fram af hópi sem síðan hefði yfirgefið flokkinn, en hæstv. forsætisráðherra skrifaði undir þetta bréf með undirskrift sinni. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra: Gerir hann mikið af því að skrifa undir skjöl sem hann er efnislega ósammála? Ef ekki, hvenær hætti hann að skrifa undir skjöl sem hann var efnislega ósammála? Er það forsenda þess að við getum treyst undirskrift hæstv. forsætisráðherra að hann hafi skrifað efni skjalanna sjálfur? Þá erum við í vondum málum því að ráðherrar skrifa mjög oft undir skjöl sem þeir hafa ekki samið sjálfir. Við urðum hér í upphafi þingfundar vitni að hinni helgustu undirritun, undirritun allra þingmanna undir eið að stjórnarskránni. Hæstv. forsætisráðherra hefur skrifað undir hann. Var þá ekkert að marka þá undirritun vegna þess að hann skrifaði ekki þann texta sjálfur?