143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

ummæli forsætisráðherra í kosningabaráttu 2009.

[16:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þó ég sé ekki hér til andsvara ætla ég að svara hæstv. forsætisráðherra. Það er hægt að skrifa undir með fyrirvara. Það mundi ráðherra gera sem hegðaði sér eins og hæstv. ráðherra nefndi í spurningu sinni til mín. Það gerði hæstv. forsætisráðherra ekki þegar hann sendi bréf til kjósenda fyrir kosningarnar 2009. Þar var engan fyrirvara að finna. Hæstv. forsætisráðherra kemst ekki undan því að hafa blekkt þá vísvitandi samkvæmt þessu. Ef hann var annarrar skoðunar á þeim tíma þá blekkti hann kjósendur vísvitandi með því að senda þeim upplýsingar og skrifa undir eigin hendi loforð um að það sem þar stæði væri satt. Samfélag gengur auðvitað út á að við treystum loforðum og undirskriftum og að við treystum því sem sagt er.

Þetta hefur greinilega verið jafn léttvægt og þegar hæstv. forsætisráðherra sagði á Laugarvatni 23. maí í fyrravor að auðvitað færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Er eitthvað að marka hæstv. forsætisráðherra yfir höfuð?